122030335_2862204927398666_45428172

Tjarnarbíó

Tjarnargata 12, Reykjavík 101, 527 2100

Opnunartími:
mán - sun: 8.00 - 16.00

Vefsíða: https://www.tjarnarbio.is/

Tjarnarbíó var opnað með pompi og prakt árið 2010 eftir breytingar. Upphaflega var gert ráð fyrir því að Sjálfstæðu leikhúsin borguðu Reykjavíkurborg leigu og fjármögnuðu reksturinn að mestu með tónleika-, ráðstefnuhaldi og útleigum fyrir veislur og aðra viðburði. Leikhópar áttu einnig að borga leigu fyrir að æfa og sýna í húsinu. Fljótlega varð þó ljóst að það myndi ekki ganga upp. Annars vegar vegna hljóðvistarvandamála, en tveir fyrstu tónleikarnir eftir opnun voru með hljómsveitunum Ghostigital og Skálmöld og nötruðu nærliggjandi íbúðir, enda Tjarnarbíó í íbúðabyggð sambyggt íbúðum á báðar hendur. Hins vegar varð strax ljóst að fæstir leikhópar réðu við að greiða uppsetta leigu. Húsinu var því lokað og hafist handa við að reyna að bæta hljóðvist hússins svo það truflaði ekki nágranna. Fyrstu árin eftir opnun gengu því brösulega á draumaheimili sjálfstæðu senunnar.

Árið 2013 tókst loks að ganga frá nýjum 3 ára samningi milli Reykjavíkurborgar og Sjálfstæðu leikhúsanna. Leigan var felld niður og Reykjavíkurborg lagði til 10 milljónir á ári til reksturs á hússinu. Þá loks sprakk starfsemin út. Nýtt fólk var ráðið til starfa og hafist handa við rífa starfsemina upp. Leikárið 2013-2014 voru um 170 viðburðir í húsinu og 6 ný sviðsverk frumsýnd. Leikárið 2014-2015 voru um 200 viðburðir í húsinu og 22 ný sviðsverk frumsýnd. Sumarið 2015 var ráðist í síðasta hluta endurbóta á húsinu. Gömlu svalirnar voru teknar og ein samfelld áhorfendabrekka með 180 sætum þar sem allir sjá vel, tekin í notkun. Þá var klárað að tæknivæða húsið svo nú þykir það sambærilegt bestu leikhúsum Evrópu af sömu stærðargráðu. Leikárið 2015-2016 stefnir í svipaðan fjölda viðburða og um 30 frumsýningar á nýjum sviðsverkum. Meðvitund almennings um Tjarnarbíó og sjálfstæðu senuna er að aukast og ekki annað að sjá en að framtíð Tjarnarbíós sé björt.

#borginokkar