Sjómannadagurinn
  • Heim
  • Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn

2. júní 2024

Sjómannadagurinn í Reykjavík býður Sjóaranum síkáta um borð Sjó­mannadag­ur­inn verður hald­inn hátíðleg­ur í Reykja­vík sunnu­dag­inn 2. júní nk. Mikil spenna ríkir í herbúðum þeirra sem standa að hátíðinni enda má gera ráð fyrir fjölmenni við höfnina á Granda þar sem Sjóaranum síkáta, hátíðarhöldum Grindvíkinga, hefur verið boðið að taka þátt. Til að sjá dagskrána smellið hér. 

Sú rómaða sjómannadagshátíð “Sjóarinn síkáti” sem haldin hefur verið í Grindavík í rúman aldarfjórðung verður á þessu ári við Reykjavíkurhöfn í ljósi aðstæðna í bænum. Faxa­flóa­hafn­ir, Sjó­mannadags­ráð og Brim eru bak­hjarl­ar Sjómannadagsins í Reykjavík og buðu Grindvíkingum að taka þátt og nota aðstöðuna við höfnina í höfuðborginni.

“Snemma árs fengum við hjá Grindavíkurbæ símtal frá formanni Sjómannadagsráðs þar sem hann bauð okkur um borð ef svo má að orði komast, þar sem ljóst var að ekki gæti orðið að hátíðarhöldum í bænum okkar. Við þurftum ekki langan umhugsunarfrest og þáðum boðið og því geta Grindvíkingar og landsmenn allir notið Sjóarans síkáta í ár eins og undanfarin 26 ár”, segir Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur.

“Við ætlum að tjalda öllu til og taka vel á móti heiðursgestum sjómannadagsins 2024, Grindvíkingum, sem nú fá heimaskjól fyrir Sjóarann síkáta við höfnina á Granda. Þegar þeir þáðu boðið hlýnaði í mínum hjartarótum enda hafa þeir gert sjómannadeginum einstaklega hátt undir höfði í fjölda ára og haldið veglega 3ja daga veislu í bænum, sjómönnum til heiðurs”, segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Sjómannadagurinn er fjölskylduhátíð sem fjallar um allt sem viðkemur hafinu, menningu tengda sjómennsku, skip, sjómenn, fisk, ýmsan fróðleik og sjómannalögin góðu í bland við góða skemmtun. Sjómannadagurinn hefur náð að vaxa og dafna undanfarin ár og er nú orðin ein af stærri hátíðum í borginni en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni í fyrrasumar. Árið 2017 voru 100 ár liðin frá því að fyrsta áfanga hafnargerðar í Gömlu höfninni í Reykjavík lauk og 80 ár liðin frá því að Sjómannadagsráð var stofnað. Að hátíðinni standa Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og Brim.

Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda. Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.

 

#borginokkar